Hugvekja

um alþýðleg fornfrœði.

Eins og nú er farinn að vakna áhugi hjá mörgum Íslendingum og tilfinning fyrir því, að það sje ómaksinsvert, að rifja upp fyrir sjer fornöldina, má ganga að því vísu, að bókmenntafjelagið hefur, eins og svo opt áður, unnið mörgum þægt verk, þegar það prentaði í »Safni til sögu Íslands« í ár »athugasemdir við Egilssögu Skallagrímssonar eptir Magnús prest Grímsson«, og »skýringar yfir örnefni í Landnámu og Eyrbyggju í Þórnessþingi hinu forna, eptir herra Árna Thorlacius«; því allar þessar fornsögur verða góðum mun ljósari og aðgengilegri eptir en áður. En eins er það á hinn bóginn vonandi, að þetta fyrirtœki bókmenntafjelagsins örfi aðgætna fróðleiksmenn, sem þegar hafa látið sjer skiljast nauðsyn þessa, til að safna í eina heild, hver í sínu hjeraði, öllum slíkum athugasemdum og skýringum, sem auðið er að fá um hvert byggðarlag fyrir sig, sem fornsögurnar fara orðum um, og þar með öllum sögnum og munnmælum, sem þar að lúta; því slíkt mundi verða ekki leysi fróðleikur, ef það kœmi allt saman á einn stað, þar sem því væri haldið til haga.

               Þessi hugsun hefur vakað fyrir mjer býsna-lengi, að oss vantaði mikið og margt í þessa stefnu, og því samdi jeg 1858 greinarkorn, sem jeg kallaði »Hugvekju um alþýðleg fornfrœði«, og sendi afskriptir af henni flestum skólabrœðrum mínum og ekki allfáum leikmönnum hjer á landi, sem jeg þekkti að frœðimönnum og fróðleiksvinum, og bað þá um, að senda mjer sögur um það og lýsingar á því, sem til var tekið í hugvekjunni. Af því jeg þóttist hafa tekið eptir því, að það væri ekki einhlítt, að skora opinberlega á menn í blöðunum, ef ekki væri jafnframt að hafzt í kyrrþey, valdi jeg heldur þessa aðferð, þó hún væri margfalt erfiðari, en ef jeg hefði látið prenta hugvekjuna, og sent hana svo. Jeg kom mjer þá ekki heldur almennilega til þess, að láta hana sjást á prenti að sinni; en Jón Borgfirðingur á Akureyri, frœðimaður og vinur minn, gjörði mjer þann greiða, að láta prenta hana í »Norðra«, 13.—14. blaði, 1859. Þetta var mjer einhver notalegasti greiði, eptir þeim undirbúningi, sem þá var kominn; því síðan hef jeg jafnan vísað til hugvekjunnar í Norðra, og upp frá því hafa mjer víða komið bitlingar og drjúgar sendingar úr öllum áttum landsins, sem lúta að ýmsum greinum alþýðlegrar fornfrœði, og kann jeg löndum mínum, sem svo vel hafa vikizt undir tilmæli mín, mínar beztu þakkir fyrir þá alúð og velvild, sem þeir hafa lagt við og sýnt þessu málefni síðan.

               Nú af því að það mun hafa verið ein með fyrstu hugvekjunum, sem Jón Borgfirðingur fjekk frá mjer og ljet prenta, en jeg hef síðan breytt henni talsvert og bœtt í hana mörgu, sem áður vantaði, og jeg á hinn bóginn vil ekki dyljast þess, að það er jeg undirskrifaður, sem safna öllum þeim sögnum og frœðum, sem hugvekjan í Norðra telur upp, þá læt jeg hana koma hjer enn fyrir almenningssjónir, með þeim tilmælum mínum: að allir þeir, sem sinna slíkum frœðum, og eru fróðlega að þeim komnir, vildu sýna mjer þá velvild, að safna fyrir mig og senda mjer allt það, sem eptirfylgjandi hugvekja telur upp. Já, þetta eru innileg tilmæli mín við alla landa mína, hvort þeir eiga meir að sjer eða minna, enn þótt jeg sje kominn vel á veg með safn af alþýðlegri fornfrœði, sem jeg hef verið að undir búa nú í næstliðin 3 ár, og sem jeg vona að verði fullprentað, áður en langir tímar líða. Hugvekjan verður nú þannig löguð, eptir flokkum þeim, sem safninu er skipt í:

 1. Goðfrœðissögur, aðrar en eru í Eddu, en sem þó hafa tillit til Eddusagnanna að öðru leyti.
 2. Álfasögur eða huldufólkssögur, um dísir og dverga (álfabruni).
 3. Sögur um sæbúa og vatna, þ. e. um marbendla, sæmenn, sækýr og sænaut, sjódrauga, sjóskrímsli, nykra, vatnaskrímsli, o. s. frv.
 4. Tröllasögur og landvœtta, þ. e. um bergbúa, bergrisa, jötna, risa, skessur eða tröllkonur, þussa, nátttröll (tröllriða, að tryllast); sögur um vættir eða óvættir, Grýlu, Leppalúða, Skrögg, Jólasveina, Jólakött, o. s. frv.
 5. Draugasögur og aðgreining á sjódraugum og landdraugum.
 6. Apturgöngur.
 7. Uppvakningar eða sendingar (aðferðin við að vekja upp).
 8. Fylgjur, svipir og fylgidraugar (ættarfylgjur).
 • Galdrasögur, og hvað galdur sje.
 1. Yfirnáttúrlegar gáfur, skyggnleiki eða ofsjónir, ofheyrn, forspá, draumvitranir.
 2. Töfrabrögð, sem til galdra hafa verið höfð, t. d. flœðarmýs, finnabrœkur (skollabrœkur eða Papeyjarbuxur), tilberar eða snakkar, sagnarandi, gandreið, þórshamar, glímugaldur, brýnugaldur, galdrastafir, sœringaþulur og bœnir, útisetur á krossgötum, ákvæði, ummæli eða álög, o. s. frv.
 3. Galdramanna-sögur.
 4. Náttúrusögur.
 5. Dýrasögur; hjer heyra undir öll þau dýr, sem einhverjar kynjasögur fara af eða hafa farið, t. d. illhveli, óætisfiskar, t. d. blágóman, öfuguggi, loðsilungur, hrökkáll, o. s. frv., dýr, sem tala, og fuglar ýmsir, t. d. óðinshani, þórshani, keldusvín; óskabjörn, pjetursbudda, o. fl.
 6. Grasasögur, um öll náttúrugrös, t. d. Brönugrös, eða Fryggjargras, Freyjuhár, Lokasjóð, Baldursbrá, skollafót, Maríustakk, o. s. frv.
 7. Steinasögur af náttúrusteinum, t. d. óskasteininum, lífsteininum, steinamóðurinni, o. s. fr.
 8. Örnefnasögur um þá staði, sem eitthvað kynlegt er við.
 9. Sögur um loptsjónir og himintungl, um friðarbogann (regnbogann), vetrarbrautina, norðurljósin, vígabrand, vígahnetti, hafgall, veðrahjálm, hjálmabönd, úlf og gýl, úlfakreppu, stjörnuhrap, stjörnunöfn norrœn.
 10. Helgisögur.
 11. Guð og kölski.
 12. Helgir menn, helzt innlendir.
 13. Paradís og helvíti.
 14. Refsidómar guðs.
 15. Hjátrú úr pápisku og pápiskar bœnir.
 16. Viðburðasögur.
 17. Kirkjusögur, helgi kirkna og máttur til áheita, um klaustrin fornu og biskupsdœmin, o. s. frv.
 18. Frá fornmönnum, sögur um hina fyrstu landnámsmenn og aðra fornfræga menn fram um 1400, hvort sem þeirra er getið í fornsögum eða ekki, og um fornstöðvar allar með nákvæmri lýsingu og máli, og helzt með uppdráttum af tóptum og öðrum mannvirkjum; þess kyns eru lýsingar á fornum byggðarlögum og bœjum, sem nú eru eyddir, en bœjanöfnin þó eptir og önnur örnefni, dregin af fornmönnum og bústöðum þeirra; hvernig bœirnir hafi eyðzt. Þá eru lýsingar á öðrum fornvirkjum og fornmenjum, sem finnast kunna og fundizt hafa, t. d. garðlög, göngugarðar, vörzlugarðar, stakkgarðar, hagagarðar, haugar, hvar þeir sjeu og við hverja kenndir, hvort grafið hafi verið í þá, hvað í þeim hafi fundizt, og hvað sje af því orðið. Lýsing nákvæm á fornum þingstöðum, dómhringum, búðum, hofum, hörgum, blótsteinum, og kirkjustœðum fornum með lengdarmáli, þvermáli og ummáli í álnum eða föðmum, á fornum laugum, brúm (steinbogum og öðrum brúm, sem gjörðar hafa verið), brautum, höggnum eða ruddum af manna-höndum. Glögg lýsing með uppdráttum af gömlum verkfœrum og áhöldum, fornum útskurði, byggingum, skálum og af húsbúnaði fornum, t. d. af útsaumuðum tjöldum, stólum, súlum, súðar- og þilfjölum, byrðum, örkum, af vopnum, reiðtygjum, búningum karla og kvenna, sem menn vita að verið hefur til, með nöfnum og lýsingum.
 19. Sagnir frá seinni öldum af merkilegum viðburðum í náttúrunni, jarðeldum, vatnsflóðum, skriðum og skemmdum, af drepsóttum (t. d. svarta-dauða), dýrtíð, óárun, og auðnum þeim, sem af öllu þessu hafa staðið; af voveiflegum dauðdögum og slysum, af ránum og ránsmönnum, af morðingjum, af skemmtunum, reiðum og reiðmönnum; af afreksmönnum, sterkum mönnum, sjóferðamönnum, göngumönnum, o. s. frv.
 • Útilegumannasögur hinar betri, sem hafa eitthvað einkennilegt og sennilegt við sig.
 • Æfintýri, eða sögur af kóngi og drottningu í ríki sínu og karli og kerlingu í koti sínu (garðshorni).
 1. Kýmnisögur; þær sögur eru mjög með ýmsu móti; stundum skýra þær frá brögðum og hrekkjum, sem beitt hefur verið, til að komast sjálfur úr beyglum, eða til að blekkja aðra; stundum fer atburðurinn fram á þeim stöðum, sem kýmni á sízt við, og verður fyrir það enn hlœgilegri; stundum er undirrót sögunnar háskalegur misskilningur og fljótræði; sögur af hlœgilegum kvonbónaferðum, af heimskingjum og flónum, af ginningarfíflum og nirflum.
 2. Kreddur, sem sumir kalla bábiljur, hjegiljur, hjátrú, kerlingabœkur, eða hverjum öðrum nöfnum, sem allt slíkt tjáir að nefna, sem eldri menn hafa lagt nokkurn trúnað á.
 3. Víti, sem manni er sjálfrátt að varast.
 4. Fyrirburðir, illsvitar og úrræði, góðsvitar og fyrirboðar fyrir ýmsu.
 5. Fyrirboðar um veðráttufar og árferði, bæði í lausu máli og ljóðum.
 6. Venjur við hátíðahöld, tyllidaga og glaðninga.
 7. Leikir og töfl, þjóðleikirnir fornu og lýsingar af þeim, sem enn kunna að loða eptir, dansleikar (vikivakar), dansleikakvæði, og eins allir þeir leikir, sem eldri og yngri temja sjer enn og hafa tamið. Hjer ríður ekki einungis á að fá öll þau kvæði og kvæðabrot (leikkvæði), þulur og formála, sem hverjum leik heyra fyrir sig, og taflvísur, heldur einnig hvað annað, sem skýrt geti sem nákvæmast alla aðferðina í leiknum og ganginn í taflinu.[1]
 • Þulur og barngœlur alls konar, hvort heldur það eru formálar fyrir leikum, barngœlur, sem mœður og fóstrur kveða og raula við börn, til að hugga þau og svæfa, eða þær vísur, sem börnum eru kenndar fyrst, til að hafa af fyrir sjer, eða önnur endileysa, sem svo er kölluð; sumar þulur eru og gátur.
 • Gátur og þýðing þeirra, bæði í ljóðum og lausu máli. Þar að auki væri vel að safnað væri orðskviðum, málsháttum, heilræðum, sannmælum, spakmælum, snillyrðum.
 • Kvæði og ljóðmæli, rímur hinar eldri og rímnaflokkar, söguljóð, helgra manna kvæði, dansleika- og vikivakakvæði (þau eru flest með viðlögum, viðkvæðum), og önnur kvæði; kvæðasyrpur og vísur alls konar, hverju nafni sem nefnast, sem ekki eru áður prentaðar.

Allar sagnir, og lýsingar, og kvæði, og hvað eina, sem hjer að framan er upp talið, óska jeg að safnendur taki sem næst verður komizt frásögn sögumanna, en kvæðin orðrjett eptir þeim, án þess neitt sje úr fellt eða í aukið, nema annar viti gjör eða greinilegar, sem þá yrði að geta sjer í lagi; ekki ætti heldur að skrifa á sömu blöðin nema þær sagnir, sem hverjum flokki hlýða. Heimildir og sögumenn þarf að tilgreina alstaðar, og skýra þungskilin og sjaldgæf orð neðanmáls, eptir því sem sögumaður eða safnandi leggur í þau. Loksins tek jeg það fram, að menn láti sjer enga læging að þykja, að tína smátt til í söfnum sínum, svo ekki sannist á oss hið fornkveðna:

»því áttu svo fátt,

að þú nýttir ei smátt«;

því hvað smáar sem sagnirnar eru, verða þær fyrir því að góðu gagni, þegar margt kemur saman, og fylla þá opt hver aðra.

Reykjavík, 10. dag októbermánaðar 1861.

Jón Árnason,

bókavörður við stiptsbókasafnið.

[1] Vera má, að ekki verði fleiri en ellefu flokkar í safni því, sem nú er verið að prenta, sem þá kemur til af því, að rúmið leyfi það ekki eptir hinum umsamda arkafjölda, en jeg býst við allt fyrir það, að svo geti farið, að þrír flokkarnir, sem hjer á eptir eru taldir, verði prentaðir seinna, og því er mjer eins mikil þö