Bréf

Bréfasafn Jóns Árnasonar er varðveitt í tveimur söfnum. Bréf til Jóns frá Íslendingum eru nú varðveitt af Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum í 39 öskjum undir safnmarkinu NKS 3010 4to. Safnmarkið er komið frá Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn en íslensku bréfunum var skilað til Íslands árið 1997. Bréf til Jóns frá erlendum mönnum eru ennþá varðveitt í Konunglega bókasafninu í þremur bréfabögglum.

Bréf frá Jóni Árnasyni má finna í ýmsum söfnum, en flest þau sem vitað er um eru varðveitt í handritasafni Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Hér er lögð áhersla á að birta uppskriftir bréfa sem varða þjóðsagnasöfnun Jóns Árnasonar og útgáfu, svo sem frá þeim sem söfnuðu fyrir hann út um landið og bréf sem fóru á milli Jóns, Guðbrands Vigfússonar og Konrad Maurers.

Myndir af bréfum sem varðveitt eru í handritasöfnum Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns eru birtar á einkaskjol.is.