XVII

Enginn hefur getað dregið það af Íslandi að það hafi verið eitthvert ágætasta söguland til forna, enda hefur Íslendingum oft verið borið það á brýn að þeir lifðu allir í söguöld sinni og stærðu sig af henni, og er það þá ekki af engu og satt er bezt að segja að sögufróðir menn hafa verið hér á öllum öldum þó ekki hafi seinni aldirnar komizt til jafns við hinar fyrri. Þetta er þó einkum sagt um bóksögurnar; en til eru einnig aðrar sögur sem hafa, eins og bóksögurnar, fyrst framan af gengið munna á milli og það miklu lengur margar hverjar en bóksögurnar. Það eru alþýðusögurnar eða munnmælasögur og ævintýri og veit enginn hvað gömul þau eru sum hver. Þessari sagnagrein hafa fáir gefið gaum til forna sem vera bar, og þeir sem lögðu nokkra rækt við hana hafa oftast orðið fyrir aðkasti og þó eru slíkar sagnir jafnskilgetnar dætur þjóðarandans sem bóksögurnar sjálfar sem enginn hefur enn getað oflofað. Það má fullyrða það að munnmælasögur hafi fæðzt og myndazt í og með þjóðinni, þær eru skáldskapur þjóðarinnar og andlegt afkvæmi hennar öld eftir öld og lýsa því betur en flest annað hugsunarháttum hennar og venjum. Af því hér kemur fyrir sjónir fyrra bindið af íslenzkum alþýðusögum og munnmælum þykir mér það eiga við að segja nokkur atriði úr örlagasögu þessara sagna, bæði af læging þeirra og uppreist.

Til skamms tíma höfum vér flestir Íslendingar amazt við alþýðusögum af því þær væru hjátrú. En dæmi nú aðrir um það hvort betra sé hjátrú en vantrú og því er það hverju orði sannara sem landi vor herra Jón Sigurðsson segir um þetta efni: „Vér getum ekki að því gjört að oss finnst þessi trú (sem kemur fram í alþýðusögunum) vera samfara einhverju andlegu fjöri og skáldlegri tilfinningu sem ekki finnst hjá þeim er þykjast svo upplýstir að trúa engu.“1 „Snemma taka börn til meina,“ og snemma byrjaði þessi óbeit á öllu sem laut að hinni fornu trú (heiðnu trúnni) og því fékk Jón helgi Ögmundsson því illu heilli framgengt að Íslendingar breyttu fornu daganöfnunum norrænu í þau sem nú eru2 (þó öðrum gotneskum þjóðum þyki engin læging að halda hinum fornu daganöfnum enn í dag) einmitt til þess að afmá þann urmul sem enn loddi þar eftir af goðanöfnunum fornu. Þá tók ekki betra við þegar lengra leið fram á aldirnar; því þó sumir prestarnir væru ekki lausir við hjátrú og hindurvitni eins og munnmælasögurnar sýna vildu flestir þeirra útrýma slíkum kenningum úr hjörtum tilheyr-

FORMÁLI JÓNS ÁRNASONAR

XVIII

enda sinna sem þeim var alls ekki láandi. En svo mikið kvað að vandlætingum hinna ákafari presta í þessu að einstakir menn, sem gáfu sig við alþýðlegri fornfrœði sem þá var kallaður galdur til að sverta bæði þá sjálfa og iðn þeirra í augum almennings, voru ofsóttir eins og til dæmis Jón Guðmundsson lærði, 3 en margir samtíðamenn hans voru fyrir aðfylgi veraldlegs valds brenndir á 17. öldinni því þá voru hér galdrabrennur alltíðar. Það var hvort tveggja að þessi brennuöld var liðin þegar Árni Magnússon safnaði hér hinum fáu alþýðusögum sem nú finnast í safni hans enda var hann óvíttur fyrir það; en hitt hefur honum verið lagt misjafnlega í þökk að hann safnaði að sér og flutti burt héðan svo mörg ágæt bóksöguhandrit og frelsaði þau svo frá eyðingu. Þeir sem næstir eftir Árna söfnuðu hér alþýðusögum voru að minnsta kosti heimskaðir ef ekki fyrirlitnir fyrir hjárænuskap sinn eins og Eiríkur Eiríksson Laxdal sem að sögn hefur safnað allra manna mest af þess konar sögum, 4 og Purkeyjar-Ólafur annar. 5 Prestunum var hin mesta vorkunn og bein embættisskylda þeirra að útrýma hindurvitnum og hjátrú úr söfnuðum sínum, en með hjátrúnni misstist meira; því þegar búið var að koma inn fyrirlitningu á munnmælum og alþýðlegri fornfræði hjá almenningi var það bein afleiðing að það legðist af að „segja sögur“. Enda er svo komið að örfáir kunna nú orðið að segja sögulega og áheyrilega frá slíkum viðburðum þó sögurnar sjálfar loði enn eftir. Það bætti og ekki úr skák fyrir munnmælasögunum að farið var að prenta bóksögurnar; því bæði var það brýnt fyrir alþýðu að leggja stund á að lesa þær, sem vel var, heldur en leggja hlustirnar við „lygasögum“ og á hinn bóginn varð hún að finna það sjálf að bóksögurnar voru bæði áheyrilegri og lengri og merkari en munnmælasagnir. Þetta mun nú hafa riðið endahnútinn á alþýðusögurnar því ég ætla það sannreynt að síðan almennt var farið að prenta bóksögur hafi menn mest lagt fyrir óðal munnmæli og sögusagnir og hvort tveggja hafi svo smádeprazt og fjöldi af því farið í gröfina með körlum og kerlingum svo það hefst aldrei aftur að eilífu nóni. Þetta ætla ég muni vera stórmerkin úr lægingarsögu munnmælanna hér á landi allt fram um 1840, og má það

 

FORMÁLI JÓNS ÁRNASONAR

XIX

heita undur eftir allan þenna undirbúning öld eftir öld að þó skuli vera vaknaður eftir ekki full 20 árin seinustu sá áhugi á þessu máli sem nú er orðinn hjá allmörgum, einkum sumum prestum6 og hinum skynsamari leikmönnum sem ekki láta leiðast af hleypidómum fyrri tímanna, svo að nú má álíta að málið sé komið í réttara horf og betra en nokkurn tíma áður ef til vill meðan alþýðu var gjarnt að leggja of mikinn trúnað á ýms hindurvitni sem yfirvöldin ofsóttu ekki aðeins með lagasóknum, heldur með eldi og járni, þar sem þessir sömu menn eru farnir ekki einungis að veita málinu eftirtekt, heldur einnig að unna því hugástum margir hverjir og spara hvorki fé né fyrirhöfn til að safna og halda til haga alls konar fornfræði frá fyrri öldum án þess þó að láta leiðast afvega af innihaldi hennar. Hér væri því auðséður ávinningur í vændum ef þeir sem safna vildu senda afskriftir af söfnum sínum á einn stað þar sem þær yrðu bæði hirtar og notaðar af þeim sem kunnugastir eru þeim sökum og ef ekki væri of mikið horfið af þessum fræðum að fornu sem uggvænt er að aldrei fáist framar eins og reynslan bendir nú til þar sem nálega heyrast úr öllum áttum umkvartanir yfir því að of seint hafi verið byrjað að safna. En slíkt er þó meir barlómur og viðbárur því þó margt sé týnt og tröllum gefið er það enn ótalmargt sem eftir loðir og því er mest undir því komið að mönnum lærist að safna því sem enn er til, og þarf varla að kvíða því að það verði ekki þegar áhuginn er vaknaður.

Ég skal þessu næst víkja fáum orðum að því hvernig á því stendur að svona hefur skipzt um hugi manna og hækkað hagur strympu þar sem alþýðlega fornfræðin á hlut að máli. Eins og þegar var sagt var sí og æ að draga af öllum munnmælasögnum svo enginn vissi nær þær mundu gefa upp andann, og litlir fjörkippir ætla ég muni hafa færzt í þær fyrir það þó fornfræðanefndin í Kaupmannahöfn sendi hingað áskorun sína 5. apríl 1817 um fornleifaskýrslur eða þó rentukammerið og kansellíið skrifaði 19. s. m. 7 eftir undirlagi sömu nefndar bæði amtmönnum og biskupi hér á landi um að hlutast til að þyrmt væri þeim fornleifum sem þau bréf tiltaka, en þó voru þetta fyrstu tilraunirnar sem gerðar voru úr þeirri átt til að halda þess konar fræði til haga. Aftur tók fornfræðafélagið sig upp í góðu veðri og samdi „boðsbréf til Íslendinga um fornfræðaskýrslur og fornsögur“ 28. apríl 1846, og þegar það bréf barst út hingað þutu margir upp til handa og fóta og sendu félaginu ekki einungis fornfræðaskýrslur sem vel var maklegt, heldur einnig flest sem þeir gátu við sig losað af íslenzkri fornfræði, en þó allra mest af bóksöguhandritum og kvæða, eins og sjá má af tímariti fornfræðafélagsins „Antiquarisk Tidsskrift“ þó nú hafi menn seinni árin sent þess konar öllu heldur bókmenntafélagsdeildinni í Kaupmannahöfn sem svo oft hefur ámálgað slíkt. Hafa menn fundið sér það öllu skyldara af því að forseti þeirrar deildar er jafngóðkunnur sem þjóðkunnur að hirðusemi, framkvæmd og dugnaði, auk þess sem sízt leikur tvímæli á því að hann sé fjölvitrasti vísindamaður vor. En á því sem út hefur verið sent, fyrst fornfræðafélaginu og síðan bókmenntafélaginu, er svo að sjá í skýrslum beggja sem

 

FORMÁLI JÓNS ÁRNASONAR

XX

minna hafi verið sent af munnmælasögum að tiltölu en annari fræði og býst ég við að því valdi meir örðugleiki og ómak við að safna sögunum en það að menn hafi óttazt fyrir að þeir mættu bera blygð fyrir að hafa safnað þeim.

Einu ári áður en fornfræðafélagið gaf út fyrrnefnt boðsbréf sitt til Íslendinga tókum við séra Magnús sál. Grímsson meðan hann var í skóla okkur saman um að safna öllum þeim alþýðlegum fornfræðum sem við gætum komizt yfir. Safnaði hann þá mestmegnis sögum, en ég kreddum, leikum, þulum, gátum og kvæðum, en hvor safnaði þó fyrir annan og benti öðrum þangað sem liðs var að leita. Þetta safn jókst smásaman þangað til við fengum af Einari prentara Þórðarsyni hér í bænum að gefa út dálítið sýnishorn af því 1852 og kölluðum það Íslenzk æfintýri. Þetta sýnishorn átti fyrst í stað fáum vinum að mæta á Íslandi eins og við mátti búast eftir það sem undan var farið, en þó virtu sumir vel viðleitni okkar; en betri viðtökur fékk það hjá löndum okkar í Kaupmannahöfn og þó tóku Þjóðverjar því þessa bezt því þar höfðu þeir bræður Grimm fyrstir allra manna í norðurálfu heims svo ég viti og þegar fyrir löngu vakið athuga manna og tilfinningu fyrir munnmælasögum, og því má með fyllsta rétti kalla þá feður slíkra sagna engu síður en Herodotos föður mannkynssögunnar þar sem þeir hafa með frábærri snilld og alúð safnað þýzkum þjóðsögum í bók þá sem heitir Kinder- und Hausmärchen og gefið með því öldum og óbornum hina ágætustu fyrirmynd í þá stefnu. Af þessu tóku Þjóðverjar einna bezt ævintýrum okkar; þó gengum við lengi duldir þess og bæði af því og eins af hinu að ekkert útlit var til þess að við gætum gefið meira út af sögunum höfðum við því nær lagt árar í bát með að safna meiru af þeim en komið var 1852 þegar vinur minn dr. Konráð Maurer kom út hingað vorið 1858. Þó hann hefði ekki séð nema þetta prentaða sýnishorn af safni okkar séra Magnúsar áður en hann kom,hingað í land og væri hér ekki nema hásumartímann á ferðum sínum. fann hann það skjótt að hér var mikil nægð af alþýðusögum og hvatti okkur séra Magnús til að halda áfram safni okkar áður en hann fór héðan aftur þó hann gæti ekki gefið okkur vissu fyrir því að það yrði prentað fyrr en með bréfi 25. marz 1859. Þessum mikla manni og ástvin alls íslenzks þjóðernis er það að þakka að nú hafa aðrir Þjóðverjar tekið með honum í sama strenginn og sér í lagi hefur bókaverzlun Hinrichs í Leipzig hlaupið hér svo heiðarlega undir bagga með því að taka að sér útgáfu safns þessa.

Þegar Maurer var farinn héðan um haustið 1858 tók ég mig til og skrifaði í allar áttir vinum mínum og skólabræðrum og öðrum fræðimönnum víðs vegar um landið og lét þar með fylgja yfirlit yfir það sem ég óskaði helzt að safnað væri; það yfirlit kallaði ég Hugvekju.8 1 Varð ég þess þá brátt áskynja að „Íslenzku æfintýrin“ höfðu þegar frá leið vakið hér athygli manna sem þess vegna vikust flestir svo vel undir tilmæli mín að síðan hafa mér víða komið bitlingar eins og Hallgerði sálugu, í ýmsum greinum alþýðlegrar fornfræði, og yrði það of langt mál að telja þá hér upp alla sem til þess hafa orðið að senda mér sögur og fræði, en síðari deild safnsins vildi ég láta fylgja nafnaregistur yfir safnendur mína og sögumenn þó margra þeirra sé getið í heimildunum við sögurnar sjálfar; en ég votta þeim öllum hér mínar beztu þakkir fyrir þá aðstoð og velvild

 

FORMÁLI JÓNS ÁRNASONAR

XXI
sem þeir hafa sýnt mér í þessu efni sem annars hefði „aldrei orðið barn í brók“. Eins og þetta er uppreistarsaga íslenzkra alþýðusagna, eins er það aðdragandinn til þess að safn þetta kemur á prent.

Þegar ég hef nú getið þess hvernig mér berast efni í safnið verð ég líka að skýra frá því að þó „lengi sé hægt við að taka“ söfnum safnenda er ýmislegt athugavert fyrir því. Það er sannast að segja að allir safnendur mínir eiga lof skilið fyrir það sem þeir senda mér, en þó er ekki öllum jafnvel lagið að orða alþýðusögur sem þeim séra Skúla Gíslasyni á Breiðabólstað, séra Magnúsi sál. Grímssyni, séra Sveinbirni Guðmundssyni nú á Krossi, séra Sveini Níelssyni á Staðastað, séra Benedikt Þórðarsyni á Brjánslæk, og af leikmönnum: herra Jóni Sigurðssyni alþingismanni á Gautlöndum, herra Þorvarði Ólafssyni nú á Kalastöðum, herra Runólfi Jónssyni á Vík í Mýrdal, — því þessir menn og aðrir miklu fleiri segja söguna í daglegu máli fjörugt og líflega eins og bezt á við, en þó án allrar viðhafnar í ritshætti, orðatiltækjum og setningaskipun; en þar sem þessa hefur ekki verið gætt í sögunum hef ég leyft mér að víkja því við í hendi og eins að fella úr flestar ættartölur; því ef öllu hefði verið haldið orðréttu eins og mér barst það hefði safnið orðið næsta ólíkt sjálfu sér innbyrðis og þó má vel vera að enn sé of miklu haldið af þess konar. Þetta hef ég nú ráðizt í að safnendunum fornspurðum og því mætti vera að það yrði uppistöðuefni milli þeirra og mín ef ég þekkti þá ekki svo skynsama að þeir léti ekki slíka smámuni verða góðu málefni að fótakefli og treysti ég þeim til þess að þeir hvorki fyrtist við mig fyrir það né svipti mig aðstoð sinni síðar þegar svo ber undir.

Annað atriði er það sem búast má við að geti vakið óánægju sem mér er þó ósjálfrátt, en það er það að ýmsar sögur ganga víða um land og segir þó nálega sinn frá með hverju móti ef ekki sinn með hverjum atvikum, og þó ég hafi sumstaðar tilfært missagnir uggir mig að sumum kunni að þykja öðruvísi og ef til vill miður frá sagt en þeir hafa vanizt. En af því ég varð að segja svo hverja sögu sem hún barst mér eða sem næst því og ég kunni ekki betur frá að segja eða öðruvísi vænti ég að mér verði virt þetta til vorkunnar. — Enn er eitt aðgæzluvert og er það það að ég hef orðið að snúa mýmörgum sögum á íslenzku úr hinum „Íslenzku alþýðusögum“ dr. Maurers sem hann hefur ritað á þýzku af því ég hef ekki fengið sömu sögurnar annarstaðar að, og er orðfærið á þeim hjá mér sjálfsagt óþýðara og miður en ef ég hefði haft þær fyrir mér á frummálinu; þó er víða vitnað til bókar Maurers án þess sögurnar séu útlagðar.

Tveir atburðir eru það sem hafa haft mikil áhrif á safn þetta, annar til ills, en hinn til góðs. Það er fráfall séra Magnúsar sál. Grímssonar og útgáfa Maurers af „Íslenzku alþýðusögunum“ sem nýlega var getið. Svo var sumsé til ætlazt að við séra Magnús værum báðir útgefendur safns þessa. En þegar hann var búinn að skrifa upp rúmlega það sem hann hafði safnað sjálfur 9 kvaddist hann héðan 18. janúar 1860, og má nærri geta hvað það hefur bæði tafið og bagað safnið að missa þess manns sem svo margt var vel gefið, auk þess sem ég missti þar ástfólginn skólabróður og tryggan vin.

Aftur á móti er hins að geta að þegar Maurer kom heim aftur til sín héðan af landi lét hann sér ekki einungis annt um að útvega útgefanda að safni þessu sem áður er á

 

FORMÁLI JÓNS ÁRNASONAR

XXII

vikið, heldur ritaði hann bók á þýzku máli um íslenzkar alþýðusögur10 sem hann hafði safnað hér á landi úr öllum sagnaflokkum sem til eru í munnmælasögum vorum og sneri þeim á þjóðversku, og er það öll furða hversu mikið sá maður sem ekki var hér nema hásumartímann hefur komizt yfir af sögum, eins og hversu nauðkunnugur hann er öllu íslenzku út í yztu æsar og inn í innstu æðar, bæði þjóðarháttum vorum og ritum. Þessari bók Maurers sem ég hef haft fyrir stöðugan leiðarvísi í þessu safni á það allt fyrirkomulag sitt að þakka; já, ég get sagt það með fullum sanni að safn mitt hefði aldrei orðið annað en eintómur óskapnaður án hennar því allir inngangar fyrir flokkunum og greinunum og atriðunum eru teknir eftir henni meir eða minna orðrétt, eins og einnig flokka- og greinaskipunin sjálf. En þótt ég hafi aldrei misst sjónar á þessum leiðarvísi mínum hef ég þó þokað til einstöku atriðum, sumpart eftir bendingum Maurers sjálfs. Fyrstu grein í I. flokki sem Maurer hefur um goðin hef ég alveg sleppt af því ég þekki engar alþýðusögur um þau sem enn gangi munna á milli; enda hefur Maurer, svo aðgætinn maður og skarpskyggn, ekki fundið nema fáein drög til þeirra í náttúrufræðisnöfnum, mannanöfnum íslenzkum og við særingar. Önnur breyting er það sem ég hef gert eftir bendingu Maurers að ég hef haft útilegumannasögur í flokki sér, VII. flokki, sem hann hafði í 4. grein í viðburðasögum, VI. flokki, og enn eru fleiri smábreytingar sem ekki tekur að telja. Þannig hefur Maurer leiðbeint mér bæði með bók sinni og ótölulegum bendingum í bréfum til mín um fyrirkomulag safnsins, og næst honum herra Guðbrandur Vigfússon sem auk þess að hann hefur afskrifað svo margt fyrir mig bæði úr safni Árna Magnússonar og fornfræðafélagsins í Höfn og safnað talsverðu til þess sjálfur hefur yfirfarið safnið jafnóðum og það hefur gengið gegnum hendur hans til Maurers, og nú hefur hann seinast í sumar, um leið og hann fór kynnisför til München til Maurers vinar okkar, yfirskoðað safnið með honum að nýju. Þar að auki hef ég haft mikinn stuðning af áliti herra Jóns Sigurðssonar um bók Maurers í Nýjum félagsritum sem fyrr er getið og af hinum fjölhæfu athugasemdum séra Skúla Gíslasonar sem jafnframt því að hann er einhver fróðasti sögumaður og orðar þær allra manna bezt ber bezta skyn á fyrirkomulag þeirra eins og á að safna þeim svo að notum verði. Ofan á allt það sem áður er talið hefur dr. Maurer sýnt mér þá velvild að taka að sér prófarkalestur safnsins, og má ég játa að það er með fram því að kenna að handritið sem ég hef orðið að senda var miður úr garði gert en skyldi, að töluverðar prentvillur eru í fyrstu örkunum auk ósamkvæmni í stafsetningu sem kemur af því að ég hef orðið að nota ýmsa skrifara, en mig hefur einatt brostið tíma til að lesa afskriftirnar yfir í næði á eftir.

Öllum hér töldum mönnum votta ég sér í lagi mínar innilegustu og virðingarfyllstu þakkir fyrir þann óþreytandi velvilja, holl ráð og bendingar og margfalda aðstoð sem þeir hafa sýnt mér, gefið mér og veitt mér. Ég viðurkenni það og með þakklátsemi að bókmenntafélagið íslenzka hefur hlutazt til þess að gera safnið kunnugt á fósturjörð þess, og þakka þeim mönnum það innilega sem að því hafa stutt.

 

FORMÁLI JÓNS ÁRNASONAR

XXIII

Svo er til ætlað að safn þetta verði í tveimur bindum og tíu flokkum; af þeim eru níu munnmælasögur og hinn tíundi kreddur. Eru þó fjórir flokkar eftir sem ekki komast í það: leikir, þulur, gátur og kvæði, sem ég er ekki vonlaus um að kynni að verða prentað seinna ef útgefandinn yrði skaðlaus af þessum tveimur fyrstu bindum safnsins. Þó skyldi enginn ætla að þetta væri fullkomið safn af íslenzkum munnmælum; því þó ég yrði allra karla elztur og landar mínir sendu mér sí og æ viðauka, ískeyti og leiðréttingar við safnið mundi munnmælum aldrei fullsafnað að heldur; því að ætla sér að tæma það efni er sama sem að ætla sér að tæma ímyndunarafl þjóðarinnar sem ávallt skapar og yrkir.

Með þessum inngangsorðum sleppi ég þá hendinni af safni þessu, ekki áhyggjulaus um það; því ég finn það of vel sjálfur hversu víða því er ábótavant frá minni hendi til þess að ég geti vænt um það vægra dóma enda er það málefninu fyrir beztu að það verði athugað betur af þeim sem bera skyn á slíka hluti og skýrt á fleiri vegu en mér hefur verið auðið í hjáverkum mínum; því með því einu móti verður auðið að fá íslenzkt munnmælasafn að gagni. Eg mundi þess vegna taka því með mestu þökkum ef landar mínir vildu láta mér í té alla þá viðauka, ískeyti og leiðréttingar sem þeir eru færir um að gera því ef ég tóri vildi ég ekki hætta við svo búið. Það eitt er mér til huggunar að þegar safn þetta er fullprentað verður þeim þó hægra að sjá hverju safna eigi sem ekki hafa enn skilið „Hugvekjuna“ mína og annaðhvort þess vegna ekkert látið til sín heyra eða þá þótt „það fyrir neðan sig“ að safna íslenzkum munnmælum sem ég ætla að flestir landar mínir séu nú farnir að hafa í meiri hávegum en áður um stund, enda þurfa þeir ekki að skammast sín fyrir þau ef þau eru ekki afskræmd í meðferðinni sem mér hefur þá orðið óvart, hafi það orðið, og óska ég að þau mættu verða þeim löndum mínum og öðrum sem unna slíkum fræðum til skemmtunar og ánægju, en geri hinum ekkert rúmrusk sem þykja þau enn vettugis verð og hafa gleymt þessari reglu Pliniusar: „Sit apud te honor antiquitati, sit ingentibus factis, sit fabulis quoque.“

Reykjavík, 26. október 1861
JÓN ÁRNASON


1 Ný félagsrit, 20. ár, 191.–192. bls.

2 Biskupa sögur II, 39. og 102. bls.

3 Sbr. tilvitnanir í 2. neðanmálsgrein á 2. bls. í safninu [1. útgáfu].

4 Eiríkur var djákni á Reynistað, en átti þar barn, fór svo utan og var um hríð á háskólanum í Höfn. Eftir það kom hann út hingað, en var þreyjulítill, fór jafnan milli manna og hafði ofan af fyrir sér með því að „segja sögur“ þar sem hann kom og dvaldi eins og fleiri hafa brallað hér á landi, og um leið grófst hann hvervetna eftir sögum þar sem sögufróðir menn voru á bæjum. Allar þær sögur, bæði sem hann kunni sjálfur og þær sem honum voru sagðar, skrifaði hann upp hjá sér í mikið safn. Af því maðurinn var sagður gáfaður og skáld, en jafnframt sérvitur, setti hann sögurnar í samband hverja við aðra eftir því sem honum réð við að horfa og orti inn í þær vísur svo ekki er á að ætla þó safn hans væri til, hvað af því eru alþýðusögur og hvað tilbúningur Eiríks eða samsetningur. Sögusafn sitt greindi hann að sögn í tvær aðaldeildir; voru í annari álfasögur, hana kallaði hann Ólafs sögu Þórhallasonar, en í hinni voru ævintýri, hana nefndi hann Ólandssögu. Þó segja sumir að deildirnar hafi verið þrjár og hafi hann kallað allar einu nafni Ólandssögu. Þessu safni hélt Eiríkur fram til dauðadags 1816. Ein af vísum þeim sem kveðnar voru eftir hann látinn er þannig:
Víða flæktist, var snauður,
vandist fletta blöðum,
nú er Laxdal nýdauður
norður á Stokkahlöðum.

5 Sjá 4. neðanmálsgrein á 2. bls. í sögunum [1. útgáfu].

6 Séra Ólafur Pálsson prófastur og dómkirkjuprestur í Reykjavík hefur til dæmis ekki látið sér neina læging þykja að því að snúa á ensku nokkrum sögum úr safni þessu og verða þær líklega prentaðar í vetur í ferðabók Skotlendingsins herra Andrew James Symingtons í Glasgow sem var hér á ferð 1859.

7 Sjá öll þessi bréf í „Lovsamling for Island“ VII, 658.—61. og 667.—71.

8 Hún var fyrst prentuð í 13. —14. blaði Norðra 1859, 56. bls., undir nafni vinar míns Jóns Borgfirðings og nú aftur í „Íslendingi“ nr. 12, 2. ár, 91.—93. bls.

9 Sögur þær sem séra Magnús hefur safnað eru merktar M. G., þó hefur mér láðst eftir að merkja svo sögurnar á …. bls.

10 Bókin heitir á þýzku máli: „Isländische Volkssagen der Gegenwart, vorwiegend nach mündlicher Überlieferung gesammelt, und verdeutscht von Dr. Konrad Maurer. Leipzig 1860“. Herra Jón Sigurðsson alþingismaður í Kaupmannahöfn hefur samið sannort álit um þessa bók í Nýjum félagsr., 20. ári, 190.—200. bls., sem ég býst við að landar mínir hafi lesið.