Áhrif þjóðsagnasöfnunar Grimmsbræðra bárust út um Evrópu eftir útgáfu þeirra á Kinder- und Hausmärchen (1812–1815) og Deutsche Sagen (1816). Þau áhrif voru hluti af stærri hreyfingu sem byggði á hugmyndum fræðimanna eins og Johann Gottfried Herder á seinni hluta 18. aldar. Þeir héldu því fram að ‘ómengaðan’, fornan þjóðaranda (þ. Volkgeist) væri fyrst og fremst að finna í kvæðum, söngvum og sögum alþýðufólks. Söfnun og útgáfa á ‘þjóðlegum’ alþýðukveðskap, alþýðusögnum og ævintýrum sem fylgdi í kjölfarið meðal annars í Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Skotlandi, Írlandi og Færeyjum tengdist því að í löndunum urðu til nýjar þjóðbókmenntir, þjóðtónlist og þjóðleikhús (eins og gerðist á Íslandi). En jafnframt varð þjóðernisrómantíska hreyfingin til þess að ný verk á sviði sagnfræði litu dagsins ljós, eins og nýjar orðabækur fyrir þjóðtungur og mállýskur, og ekki síst voru þjóðernishugmyndir nýttar í sjálfstæðisbaráttu þjóða. Hinir nýju ‘þjóðfræðingar’ voru þannig á meðal þeirra sem höfðu mikilvægu hlutverki að gegna í nýju innlendu (og alþjóðlegu) neti rithöfunda, fræðimanna, stjórnmálamanna og listamanna. Jón Árnason var dæmigerður í þessu tilliti, með sterk tengsl við menn eins og Jón Sigurðsson, Guðbrand Vigfússon, Konrad Maurer, og síðast en ekki síst Sigurð Guðmundsson.
Tengslanet
Heimild: ERNiE, the Encyclopedia of Romantic Nationalism in Europe