ÍSLENZKAR ÞJÓÐSÖGUR OG ÆFINTÝRI:
TILURÐ, SAMHENGI OG SÖFNUN 1864–2014
Aðalmarkmið þessa þriggja ára verkefnis er að fjalla ítarlega um söfnun og útgáfu þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862-1864) og annað tengt efni með því að búa til ítarlegt, aðgengilegt og notendavænt stafrænt gagnasafn með fræðilegri umfjöllun og beinum tengingum við önnur skyld gagnasöfn, bæði íslensk og erlend. Þar er um að ræða stafræn handrita- og bókasöfn, gagnagrunna og vefsíður. Árið 2014 voru 150 ár liðin frá því að lokabindi 1. útgáfu þjóðsagnasafnsins kom út. Árið 2016 tóku verkefnisstjórar þátt í því að skipuleggja alþjóðlega málstofu „Grimm Ripples“ sem fór fram í Amsterdam í tilefni af 200 ára afmæli útgáfu fyrstu bindis Deutsche Sagen Grimmsbræðra. Hið mikilsmetna verk Jóns Árnasonar verður skoðað fyrst og fremst með því að beina ljósi að hinu þjóðernislega samhengi, sem hluti af hreyfingu sem miðaði að því að skapa grundvöll þjóðmenningar og endurspeglast m.a. í baráttu Sigurðar Guðmundssonar málara fyrir stofnun þjóðleikhúss, þjóðminjasafns og tilurðar þjóðbúnings. Ekki er síður mikilvægt að setja þjóðsagnasöfnunina í alþjóðlegt samhengi með því að skoða hana í tengslum við það sem gerðist hjá nágrannaþjóðunum þar sem söfnun hafði hafist eftir að Deutsche Sagen kom út 1816-1818.
Mestur hluti vinnunnar fólst í a) skönnun og skráningu skjala og handrita (sendibréfa, sagnahandrita o.fl.) sem eru grunnheimildir um söfnun Jóns Árnasonar, b) skönnun allra útgefinna þjóðsagnasafna frá 19. öld, c) nákvæmum uppskriftum á bréfum sem tengjast bæði söfnuninni og útgáfunni á þjóðsagnasafninu; ásamt söfnun á innlendum og erlendum upplýsingum sem liggja safninu til grundvallar. Allt þetta efni er nú aðgengilegt á þessum vef, í gagnabankanum Sagnagrunni sem veitir nú aðgang að nær öllum prentuðum íslenskum sögnum og ævintýrum; og gagnagrunnum Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, handrit.is, einkaskjöl.is og bækur.is, sem gefur t.d. möguleika á samanburði á upprunalegu sögunum í handritunum og prentuðum útgáfum þeirra. Verkefnið hefur ekki aðeins leitt til aðgengis gagnanna á tölvusíðum og í gagnagrunnum, heldur hafa einnig verið flutt um það erindi og skrifaðar greinar, bæði á íslensku og ensku, og haldið hefur verið um það málþing. Það mun einnig koma mikið við sögu í væntanlegri bók um bylgju þjóðsagnasöfnunar sem reis hátt í Norður-Evrópu á miðri 19. öld, og vonir standa til að ný MA ritgerð verði byggð á því þar sem fjallað verður ítarlega um söfnunarferlið og það sett í alþjóðlegt samhengi.
- Rósa Þorsteindóttir, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
- Terry Gunnell, Háskóli Íslands
- Örn Hrafnkelsson, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn
- Aðalheiður Guðmundsdóttir, Háskóli Íslands
- Arndís Hulda Auðunsdóttir
- Áslaug Heiður Cassata
- Áki Guðni Karlsson
- Bragi Þorgrímur Ólafsson
- Elsa Ósk Alfreðsdóttir
- Fjóla María Jónsdóttir
- Halldóra Kristinsdóttir
- Júlíana Magnúsdóttir
- Kristín Anna Hermannsdóttir
- Kristín Lilja Linnet
- Romina Werth
- Sigríður Hjördís Jörundsdóttir
- Sigrún Sigvaldadóttir
- Þórunn Sigurðardóttir
- Trausti Dagsson
- Olga Holownia
Í samvinnu við og með velvilja:
Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Háskóla Íslands. Verkefnið var styrkt af Rannís.