Sjálfur safnaði Jón Árnason sögum mest meðal þess fólks sem hann umgekkst í Reykjavík og meðal helstu sagnamanna hans eru Sigurður málari og Hólmfríður Þorvaldsdóttir. Hólmfríður var eiginkona Jóns Guðmundssonar (Ísl. æviskr. III, bls. 134) ritstjóra og alþingismanns og heimili þeirra að Aðalstræti 6 (nú 16) var nokkurs konar mennningarmiðstöð Reykjavíkur þess tíma. Stór hluti þeirra karla sem eru heimildarmenn Jóns bjuggu á landsbyggðinni en margir þeirra voru alþingismenn og prestar (sem reyndar eru sumir einnig alþingismenn), það er að segja menn sem reikna má með að hafi gjarnan átt erindi í höfuðstaðinn.
Dæmi um söfnunaraðferðir Jóns Árnasonar.
1. Hann skrásetti sjálfur eftir munnlegum heimildum. Stundum eftir einum ákveðnum sagnamanni:
Saga af Hildi góðu stjúpu
- í handriti Lbs 433 4to
- Skýringar og athugasemdir í Íslenskum þjóðsögum:
„375. Saga af Hildi góðu stjúpu: Þjs., hdr. J. Á. 533, 495. „Eftir jómfrú Kristínu Jónsdóttur í Reykjavík,“ síðari konu Haralds Krabbe prófessors.“ (ÍÞoÆ, bls. 629)
2. Stundum nýtti hann munnlegar heimildir frá fleiri en einum í eina frásögn:
SÉRA HÖGNI SIGURÐSSON
- í handriti Lbs 433 4to
- Skýringar og athugasemdir í Íslenskum þjóðsögum:
„SÉRA HÖGNI SIGURÐSSON. 567. Þjs., sbr. 530, 175 (prsmhdr.); frumrit m. h. J. Á. er i 532, 199. Sbr. 531, 541. – „Eftir sögn húsfrú Hólmfríðar Þorvaldsdóttur og séra Jóns Högnasonar sem frá Högna eru komin í fjórða lið.““ (ÍÞoÆ, bls. 728)
Á kortinu eru rauðlituð þau hús þar sem heimildarfólk Jóns í Reykjavík bjó skv. manntali 1860.