Jón Árnason og Magnús Grímsson, sem þá var skólapiltur við Bessastaðaskóla, tóku sig saman árið 1845 um að safna sögum, hjátrú, leikum, þulum, gátum og kvæðum. Safn þeirra með sögnum og kvæðum kom út árið 1852 undir titlinum Íslenzk ævintýri og varð fyrsta prentaða þjóðsagnasafnið sem út kom með íslenskum sögum. Útgáfan hlaut ekki góðar viðtökur og áhugaleysi landsmanna ásamt fjárskorti virðist hafa dregið kjark úr þeim félögum. Þegar þýski prófessorinn Konrad Maurer kom til landsins 1858 hvatti hann þá til að halda söfnuninni áfram og lofaði að finna útgefanda að sögunum í Þýskalandi. Magnús Grímsson lést 1860 svo það kom í hlut Jóns Árnasonar að ljúka starfinu. Maurer kynntist Jóni Árnasyni í Reykjavík áður en hann lagði af stað í ferð sína um landið, líklega hittust þeir í fyrsta sinn þann 12. maí og áttu þá strax langt samtal. Í dagbók Maurers kemur fram að þann 23. maí talar hann við Jón um að finna útgefanda eða að minnsta kosti birta sögur í tímaritinu Germania. Þann 25. mars 1859 skrifar Maurer síðan Jóni og segir honum að hann hafi gert munnlegt samkomulag við útgefandann herra Rost í Leipzig um útgáfu þjóðsagnasafns Jóns, í tveimur eða þremur bindum. Jón Árnason hefst þá handa og fer þá leið að skrifa vinum sínum og skólabræðrum (oftast prestum) og öðrum fræðimönnum víðsvegar um landið og lét fylgja með yfirlit yfir það sem hann vildi helst að þeir söfnuðu eða létu safna. Hugvekjan var einnig prentuð í blöðum og í leiðbeiningum Jóns til væntanlegra safnara kemur skýrt fram að söfnun hans er undir sterkum áhrifum frá hinum þýsku Grimm bræðrum. Margir áhugasamir tóku til við að safna þjóðsögum og kvæðum og senda Jóni Árnasyni og við tók flókið útgáfuferli. Sumir þeir er hann sendi hugvekjuna skráðu sjálfir sögur en aðrir fengu fólk til að skrá fyrir sig, stundum er sögufólkið nafngreint en stundum ekki. Jón Árnason tók við öllu, valdi úr sögur til birtingar og skrifaði inngangsgreinar að flokkum sagna. Handritið sendi hann síðan til Guðbrands Vigfússonar fræðimanns í Kaupmannahöfn sem fór yfir efnið áður en hann sendi það til Konrad Maurers í München. Það var Maurer sem stakk upp á því við Guðbrand Vigfússon að bæði hann sjálfur og Jón sendu Guðbrandi öll sín bréf og böggla opna þannig að hann geti farið yfir öll mál. Þetta er að hluta til gert til þess að flýta fyrir, þar sem póstsamgöngur við Ísland voru stopular og erfiðar, en einnig vill Maurer að Guðbrandur lesi og leiðrétti sögurnar þar sem hann sjálfur sé ekki nógu góður í íslensku. Guðbrandur verður þannig fullkomlega þátttakandi í ritstjórn þjóðsagnasafnsins og stundum kemur fram að hann hefur einnig borið mál undir Jóns Sigurðsson. Í München bjó Maurer að lokum efnið í hendur þýskra setjara og prentara sem ekki skildu orð í íslensku. Bréfaskipti á milli þeirra þriggja, Jóns, Guðbrands og Maurers, bera vott um að verkið hefur ekki alltaf verið létt, en þjóðsagnasafnið sem ávallt er kennt við Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, kom að lokum út í Leipzig í tveimur bindum árin 1862 og 1864.