Þar í vændum er, að út verði gefið, safn af Íslenzkri fornfræði ef nóg efni fást, og jeg hefi verið beðinn að útvega til þess það sem eptirfylgjandi Hugvekja bendir á, vil jeg biðja hvern þann, er hefir eitthvað þess konar fyrir hendi, að lána mjer það til afskriptar eða sölu, gegn sanngjörnu verði. Hugvekjan er þannig:

Hugvekja
um
alþýðlega fornfræði.

Allt það sem eptirfylgir, er mjer einkar áríðandi að fá uppskrifað eptir manna  minnum:

1. Fornsögur allskonar um staði og menn.

a, sem loða við bæi, hóla, steina, fjöll, vötn, ár, læki, firði, flóa, o. s. frv.
b, um nafnfræga íslenzka menn á fyrri öldum, helga menn og fjölkunnuga (Sæmund fróða, Eirík prest á Vogsósum, Kálfa Árnason, Hálfdán Einarsson eða Eldjarnsson prest að Felli í Sljettuhlíð o. fl.), afrek, aðfarir og spakmæli fornmanna, sem  ekki er í sögur  fært.
c, Útilegu manna sögur.
d, Sögur um goð, tröll og jötna.
e, álfa sögur og huldufólks.
f, sögur um grílu, jólasveina,  dísir, landvættu, landdrauga, sjódrauga   sjóskrímsli,   illfiska, sænaut (sækýr), nykra, vatnsskrímsli.
g, Sögur um drauga, apturgöngur, uppvakninga, sendingar, vofur, fylgjur, svipi, útburði.
h, Sögur  um snakka (tilbera), og hvernig þeir eru eru til búnir.
i, Um gjaldbuxur, papeyjarbuxur (finnabrækur) gandreiðir, og hvernig sje til búið, um flæðarmýs og þjófarót.
k, Um óskastund, búrdrífu, fólgið fje í jörðu, dalakúta, útisetur á krossgötum,   vafurloga.

2. Gömul kvæði alls konar, sem höfð eru til skemtunar ungum og gömlum og ekki eru prentuð.

a, Rímur gamlar, söguljóð, fornkvæði, vikivakar og lýsing þeirra, dansleikar, (þrent hið síðast talda, flest með viðlögum).
b, Kvæði um fugla og dýr, fyrirburði og forynjur, (krummakvæði, lóukvæði, grílukvæði og leppalúðakvæði).
c, þulur alts konar, langlokur, barnavísur, og allar barna gælur.
d, þulur og fyrirmæli (formálar) við leiki og tafltegundir alls konar, sem börn og fullorðnir temja sjer, eða hafa tamið og greinilegar skýrslur um allan ganginn í leiknum og aðferð í taflinu.
e, fyrirbænir fornar fyrir sjálfum sjer, særingar illra anda, og til að afstýra mótgangi, slysum, illviðrum, og andviðrum, gjörningum, o. fl.
f, Víti ein og önnur, sem börn og fullorðnir mega ekki gjöra.
g, gátur í bundinni og óbundinni ræðu.

Akureyri 9. maí 1859.
J. J. Borgfirðingur.